Monday, June 05, 2006

Fimmvörðuháls

Föstudagskvöldið 9. júní fóru Fífurnar á Fimmvörðuháls. Lagt var af stað upp úr 16:00 frá Skógum með rútu og í þetta skipti mættu um 30 hlauparar til leiks. Rútan skilaði hópnum inn að Strákagili og þaðan lagði hópurinn á hálsinn upp úr kl. 17:30. Veður var með allra besta móti til hlaupa, háskýjað, hlýtt (10-14 gráður) og logn. Fyrstu menn skiluðu sér niður á Skóga eftir 2 tíma og 18 mín. (2:18:05), það voru Sigurður Þórarinsson og Sveinn Ásgeirsson. Næstur kom Stefán Örn Einarsson á 2:20 og svo Þórður Sigurvinsson á rétt um þremur klst. Að hlaupi loknu var farið í sturtu og pottinn á Hótel Eddu og síðan snædd súpa og brauð á eftir.

Í stuttu máli þá var þetta frábært hlaup og hin besta skemmtun.

Tuesday, May 23, 2006

Kongsvegurinn

Næstkomandi fimmtudag, Uppstigningardag, standa Fífurnar fyrir þriðja utanvegahlaupinu á þessu ári. Þá er ráðgert að fara Kongsveginn (gamla Þingvallaveginn), þ.e. frá gámasvæðinu við Heiðabæ, Mosfellsheiði, og sem leið liggur niður í Árbæjarlaug. Leiðin er um 33 km löng og nokkuð þægileg yfirferðar. Lagt verður af stað frá Árbæjarlaug kl. 8:30, þar þarf að sameinast í bíla þar sem þetta er 'point-to-point' hlaup. Þetta er í fjórða skiptið sem Fífurnar hlaupa þessa leið og óhætt er að mæla með henni við alla sem hafa áhuga á utanvegahlaupum. Áhugasamir geta hringt í Þórð í síma 893-3756.

Vonumst til að sjá sem flesta,
Fífurnar.

Skeggjahlaup

Fimmtudaginn 18/5 fóru Fífufélagar á Hengilinn. Hlaupið var frá Sleggjubeinsskarði upp á Skeggja og svo til baka um Marardali, samtals um 20 km leið. Þetta var mikið ævintýri, þegar komið var upp í skarðið skall á okkur hríðarbylur hinn mesti þannig að útsýni varð ekki mikið; fór á köflum niður í nokkra metra skyggni. Þegar niður í Marardali kom skánaði hins vegar veðrið. Þegar komið var í bílana aftur eftir tæplega 3 klst hlaup var veðrið þá gengið niður.

Wednesday, February 22, 2006

FÍFURNAR hlaupa í kringum Mosfellið

Laugardaginn 25. febrúar n.k. munu FÍFURNAR fara í sitt fyrsta 'utanvegahlaup' á þessu ári
og setja stefnuna á Mosfelli. Mæting er við sundlaugina í Mosfellsbæ kl. 9. Þaðan verður hlaupið sem leið liggur upp á melana undir Esjuhlíðum og inn eftir í átt að Völlum. Síðan áfram yfir á Þingvallaveg og niður Mosfellsdalinn þar sem endað verður í heita pottinum í sundlauginni. Vegalengdin er eithvað rúmlega 20 km. Spáin er góð fyrir laugardag svo nú er bara að taka fram utanvegaskóna og drífa sig. Reyndar er nú ekki mikið hlaupið utan vega en það gæti þurft að vaða einhverjar lækjarsprænur sem reyndar eru sennilega stórfljót í öllu þessu votviðri.

Monday, September 19, 2005

Fyrirhuguð ferð í Rangárþing

FÍFURNAR ráðgera að hlaupa í grennd við Leirubakka laugardaginn 8. október. Þessi dagsetning er þó ekki endanlega staðfest.
Hugmyndin er að fara vegarslóða sem liggur út frá Tröllkonuhlaupi, með fram Þjórsá og um Skarfanes og inn á Baðsheiði. Þar er landið skógi vaxið og ku vera ægifagurt. Leiðin endar á Leirubakka. Þetta munu vera um 32-34 km. Hægt er að hlaupa styttra, einkum ef bílstjórar eru með í för.
Gott væri að heyra frá þeim sem hug hafa á að taka þátt í þessari ferð sem fyrst. Endanleg tímasetning verður ljós fljótlega.
Sendið tölvupóst á Áslaugu (aslaug@lbhi.is) eða hringið í Áslaugu (843 5325), Kötu (5574242) eða Þórð (483 3578/893 3756).

Frásögn af ferð yfir Fimmvörðuháls

Föstudaginn 10. júní fóru FÍFURNAR yfir Fimmvörðuháls. Kata var búin að undirbúa ferðina vel enda var von á fjölmenni. Þátttakendum hafði verið stefnt að Skógum kl. 15 og þar mætti múgur og margmenni. Þegar kastað var tölu á hópinn kom í ljós að í hlaðinu stóðu 30 manns albúnir til stórátaka. Mannskapurinn var ferjaður yfir að Básum og dugði ekkert minna en heil rúta. Þegar í Bása var komið var brostin á mikil blíða, sól og steikjandi hiti. Ferðin lagðist því vel í mannskapinn. Nú var lagt á brattann og þá var klukkan orðin 17.30. Fljótt dró í sundur með hópnum því þeir áköfustu hurfu fyrr en varði. Mjög heitt var í veðri og dæstu margir í verstu brekkunum. Þegar á hálsinn var komið fór að bæta í vind og við Baldvinsskála var kominn strekkingsvindur að norðan. Fóru þá sumir í ÍR stakkinn. Ekki var verra að vindurinn var í bakið því það auðveldaði mönnum niðurleiðina. Enn var mikill snjór á hálsinum og renndu menn þar sér fótskriðu og höfðu gaman af. Síðan var haldið niður með ánni eins og leið lá og fljótt lægði vindinn og hitinn tók við á nýjan leik. Niður í Skóga tíndust menn hver af öðrum. Þeir fljótustu settu nýtt met og voru einungis rúma tvo tíma en göngugarparnir voru tæpa 5 tíma.
Í Skógum beið heit sturta og súpa að loknu hlaupi og þar gátu menn skipst á sögum um afrekið. Í bæinn var komið upp úr miðnætti og þá brugðu þeir allra hörðustu sér á öldurhús og dvöldu þar fram á morgun.

Wednesday, September 14, 2005

Þórður vinnur þrekvirki

Laugardaginn 10. september laumaðist Þórður Fífufélagi út úr bænum. Veðurspá var góð og því stóðst hann ekki mátið. Honum að óvörum var hann allt í einu kominn upp í Landmannalaugar. Vissi hann ekki sjálfur hvað á hann stóð veðrið. Hann brá því á það ráð að leggjast til svefns aftur í bíl sínum um miðnættið og hugðist hann þar hugsa ráð sitt. Undir morgun leit hann út og var þá svartaþoka til fjalla. Hann festi því blund aftur og um sjöleytið var hann glaðvaknaður. Þá skein sól í heiði og því var ekki um annað að ræða en halda til fjalla og láta gamlan draum rætast.
Stefnan var sett suður Laugaveg með nesti í poka. Enginn var til þess að hvetja hann áfram og ekki heldur neinn til þess að etja kappi við. Því var nú bara sett í annan gír. Ferðin sóttist vel upp brekkurnar og engir snjóskaflar sem þurfti að fara yfir. Þórður hafði alveg gleymt að láta heimilisfólk vita af ferðum sínum og því þótti honum vissara að slá á þráðinn til konu sinnar á þeim eina metra sem símasamband var á fjöllum rétt ofan við Hrafntinnusker. Hún varð alveg steinhissa að heyra frá honum og hafði haldið að hann hefði rétt skroppið vestur í dali. Við skálann staldraði hann við eitt augnablik og fékk sér bita af nesti sínu. Þá hafði hann verið 85 mínútur á leiðinni. Eftir stuttan stans var ferðinni haldið áfram og tóku nú við jökulgilin. Þar var færð góð, allt þurrt og enginn snjór. Ekkert markvert bar til tíðinda á þessari leið og svo mikil var ferðin á Þórði niður Jökultungurnar að hann flaug yfir Grashagakvíslina án þess að blotna í fæturna. Í Áltftavatn komst hann á 79 mínútum frá Skeri.
Nú var þörf á hressingu og smá hvíld. En ekki dugði að hangsa of lengi og því hélt hann af stað fyrr en varði. Nú fór að hitna í veðri og gerðist Þórður nú þyrstur. Hann brá því á það ráð að drekka úr hverjum þeim læk sem á vegi hans varð. Bar nú fátt til tíðinda þar til komið var í Botna einni klukkustund og 55 mín. seinna. Þar varð á vegi hans hópur manna og einir fimm jeppar. Einn mannanna spurði hvaðan hann væri að koma og sagði hann sem var. Varð manninnum þá að orði: Já, mér fannst þú vera skrítinn þegar þú komst. Þórður lét þessi ummæli ekki á sig fá og settist að snæðingi við lækinn. Dró hann upp úr mal sínum flatkökur og rúgbrauð og sparaði ekki viðbitið því það var sneitt með ostaskera. Með þessu drakk hann vel úr læknum.
Saddur og endurnærður hóf hann síðasta áfangann á Laugaveginum. Var þá orðið verulega heitt í veðri. Hljóp hann fram á nokkra göngugarpa en gaf sér ekki tíma til þess að taka þá tali því honum lá á að komast í símasamband uppi á Kápunni því allt í einu hafði hann munað eftir því að honum hefði láðst að biðja einhvern að sækja sig í Langadal. Hringdi hann því í konu sína og bað hana að skreppa eftir sér. Leist henni illa á það og sagðist alls ekki treysta sér yfir árnar. Hins vegar væri hún alveg til í að renna austur að Skógum og spurði hvort hann munaði nokkuð um að skokka þangað úr því sem komið var. Hann væri hvort eð er aldrei heima og sífellt að þvælast upp um fjöll og firnindi. Það kom nokkuð á Þórð en fátt var til ráða og því lét hann til leiðast en bölvaði í hljóði.
Við göngubrúna yfir Krossá var Þórður búinn að vera tæpa átta tíma á ferðinni. Þreytan var farin að segja til sín og hann hefði alveg getað hugsað sér að sofa nóttina í Langadal. En ekki var til setunnar boðið því konan var lögð af stað og yrði nú ekki ánægð en bóndinn birtist ekki í Skógum. Því var lagt í hann og var nú rólega farið yfir aurana í átt að Básum. Við upphaf gönguleiðarinnar yfir Fimmvörðuhálsinn hafði hann þegar lagt 57,2 km að baki og nú voru fram undan hátt í 22 km og 850 m hækkun. Því fór hann rólega en ákveðið upp allar brekkurnar en erfitt þótti honum að klífa upp á Morisheiðina og ekki var Brattafönn árennileg. Sem betur fer leyndist eitt gel í malnum góða og varð það honum til lífs. Þá tók hálsinn við en hann var mjög erfiður yfirferðar og grýttur. Á jöklinum datt hann kylliflatur enda þreytan farin að segja til sín. Nú var lítið eftir annað en brekkurnar niður að Skógum. Skömmu eftir að hann hafði farið fram hjá Fúkka birtist allt í einu hlaupavinkona hans, Katrín Þórarinsdóttir, sem Hildur kona hans hafði tekið með sér til halds og trausts. Þóttist hann hafa himin höndum tekið og hresstist nú allur til muna. Ferðin niður að göngubrúnni gekk nú eins og í sögu og þar beið Hildur með hressingu handa hlaupakappanum. Saman héldu þau nú alla leið niður í Skóga og lauk ferðinni við anddyrið að Edduhótelinu. Þá var Þórður búinn að vera á ferðinni í 12 tíma, 25 mínútur og 54 sekúdur. Heildarvegalengdin var 78,79 km og garmurinn góði upplýsti að heildarhækkun hefði verið a.m.k. 2,2 km. Leiða má líkum að því að þetta hafi verið lengsta og erfiðasta hlaup sem farið hefur verið hér á landi. Geri aðrir betur!

Monday, September 12, 2005

FÍFURNAR vakna til lífsins á ný

Langt er um liðið frá því skrásetjari settist niður síðast og flutti fréttir af FÍFUNUM. Ýmislegt hefur drifið á dagana sem alls ekki má falla í gleymskunnar dá. Því verður hér fyrst rakin ferð frá því í vor er vænn hópur hélt í leiðangur inn á Hengissvæðið. Reyndar verður skrásetjari að viðurkenna að minnið er eitthvað farið að gefa sig enda langt um liðið frá því sú ferð var farin og því mun örugglega eitthvað gleymast sem vert hefði verið að skrá.

KATTARTJARNIR, laugardaginn 28. maí

Haldið var úr bænum fyrir allar aldir. Sól skeið í heiði og mikill ferðahugur í mönnum. Áætlað var að hittast við Rjúpnabrekkur fyrir innan Hveragerði um 8.30. Aldrei þessu vant mættu fleiri en þeir allra hörðustu og fengum við meira að segja liðsauka frá Selfossi þegar þau Njörður og Lísa slógust í hópinn. Haldið var sem leið lá upp brekkurnar og inn Reykjadal. Sem betur fer var bjart og þurrt því í vætutíð er upphaf leiðarinnar eitt forarsvað enda vinsæl fyrir nærliggjandi hestaleigu. Fljótlega varð lækur á á vegi okkar sem flestir skoppuðu yfir en þeir allra varkárustu þorðu ekki öðru en fara bæði úr sokkum og skóm til þess að vökna örugglega ekki í fæturna. Eftir dágóða stund komum við að sama læknum aftur og á endanum höfðum við hoppað yfir lækinn þann þrisvar sinnum. Þá vorum við komin upp undir skála Orkuveitunnar og að sjálfsögðu urðum við að kanna aðstæður þar. Leist mönnum vel á og höfðu að orði að þarna gæti verið gaman að dvelja á síðsumarkvöldi, grilla og og fara í heita lækinn. En ekki var tími fyrir þess háttar kæruleysi að þessu sinni og hófst nú ferðin fyrir alvöru. Nú var haldið áfram inn úr og í átt að Kattartjörnum. Færið var ágætt og sóttist ferðin greitt. Brátt komu tjarnirnar í ljós en í stað þess að fara niður að þeim lá leiðin niður í gil eitt mikið og illt yfirferðar. Hægðist nú á heldur á ferðinni enda varð sums staðar að fara fetið. Landslagið var hrikalegt og kom sífellt á óvart. Um síðir komumst við út úr gilinu og opnaðist þá útsýn til norðurs í átt að Þingvöllum. Var ekki farið mikið norðar úr því og sveigðist leiðin aftur til suðurs. Varð hún jafnframt greiðfærari en ekki eins mikilúðleg. Gerðust nú sumir þreyttir nokkuð en aðrir blésu vart úr nös. Heldur dró því í sundur með hópnum en þeir fremstu sýndu þó þá kurteisi að hinkra öðru hverju eftir þeim sem höfðu dregist aftur úr. Þótti okkur býsna vænt um það. Aftur varð landslagið áhugavert þegar komið var suður á Ölkelduháls og á þeim slóðum var jarðhitasvæði sem vakti áhuga okkar. Þar var þó ekkert hægt að slóra enda vorum við í hlaupaferð en ekki einhverju drolli. Um síðir komum við aftur að læknum góða og vorum við þá komin í hring. Þá var ekkert eftir nema að rúlla aftur niður Reykjadalinn sömu leið og í upphafi. Nú voru þessir varkáru ekkert að hafa fyrir því að fara úr skónum þegar hoppa þurfti yfir lækinn en duttu að sjálfsögu ofan í. Það gerði nú lítið til enda einungis steinsnar eftir að bílunum. Þangað kom hópurinn eftir rúmlega þriggja tíma hlaup. Ekki fannst Þórði nóg að gert og bætti þar við nokkrum kílómetrum á meðan þeir síðustu skiluðu sér í mark. En allir voru sælir og ánægðir við leiðarlok. Síðan var haldið í sundlaug Hveragerðisbæjar þar sem þreytan leið úr fólki og voru allir sammála um að þetta hefði verið með betri ferðum Fífanna.

Thursday, June 02, 2005

Ferð á Fimmvörðuháls

Fífurnar fara á Fimmvörðuháls föstudaginn 10. júní n.k.
Lagt verður af stað frá Skógum með rútu kl. 15.30 inn í Bása. Þaðan verður hlaupið eða gengið yfir að Skógum aftur. Reikna má með að ferðalagið yfir hálsinn taki 3-5 tíma, allt eftir því hversu hratt menn fara yfir.
Rútukostnaður verður að lágmárki 1500 kr.
Vinsamlegast látið Kötu (557 4242) eða Sigga Þórarins (860 7507) vita eigi síðar en á mánudag 6. júní ef þið hafið áhuga á að taka þátt.
ÞESSI FERÐ HENTAR BÆÐI FYRIR HLAUPARA OG RÖSKA GÖNGUMENN.